HA leggur sitt af mörkum í efnahagsþrengingunum

Á fundi framkvæmdarstjórnar Háskólans á Akureyri í gær var ákveðið að innrita í háskólann um áramót. Vegna núverandi aðstæðna í íslensku samfélagi var ákveðið að heimila innritun í fleiri námsleiðir en undanfarin vormisseri. Innritað verður bæði í grunnám  og framhaldsnám í staðar- og fjarnámi.  

Vakin er sérstök athygli á námi í sjávarútvegsfræðum, en unnið er að eflingu þess náms með þátttöku Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og menntamálaráðuneytisins. Vægi sjávarútvegs mun aukast enn frekar á komandi misserum og því mikilvægt að búið sé vel að menntun fólks sem ætlar að starfa í þeirri atvinnugrein. Háskólinn á Akureyri er eini háskólinn á Íslandi sem býður upp á nám í sjávarútvegsfræðum.

Þá mun skólinn leggja enn frekari áherslu á fjarnám og með því gera fólki kleift á að stunda nám í heimabyggð sinni. Enn fremur mun Háskólinn á Akureyri leggja sitt af mörkum með því að taka þátt í undirbúningi og skipulagningu upplýsinga- og ráðgjafaþjónustu með Akureyrarbæ. Við háskólann starfa sérfræðingar á mörgum sviðum sem munu leggja þessari starfsemi lið.

Eftirfarandi námsleiðir verða í boði:

Hug- og félagsvísindadeild

  • Fjölmiðlafræði
  • Nútímafræði
  • Samfélags- og hagþróunarfræði
  • Þjóðfélagsfræði
  • Diplómu- og meistaranám í menntunarfræðum

Verið er að athuga hvort hægt verði að innrita í kennaranám, bæði í staðarnám og fjarnám.

Heilbrigðisdeild

  • Diplómu- og meistaranám í heilbrigðisvísindum

Viðskipta- og raunvísindadeild

  • Viðskiptafræði grunnám, fjar- og staðarnám (fjármál, markaðsfræði, stjórnun)
  • Sjávarútvegsfræði

Nýjast