GV Gröfur buðu lægst í lagningu hitaveitu í Eyjafjarðarsveit

Fyrirtækið GV Gröfur ehf. á Akureyri átti lægsta tilboð í lagningu hitaveitu frá Botni að Grund og Finnastöðum í Eyjafjarðarsveit en tilboðin voru opnuð á dögunum. Alls tóku fimm fyrirtæki þátt í lokuðu útboði í verkið. GV Gröfur buðu um 29,7 milljónir króna í verkið, sem er 61% af kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á rúmar 48,6 milljónir króna.  

Finnur ehf. bauð um 35,2 milljónir króna, eða 71% af kostnaðaráætlun, G. Hjálmarsson hf. bauð 37,9 milljónir króna, eða 78%, Vélaleiga Halldórs Baldurssonar ehf. bauð 42 milljónir króna, eða 86% og Katla ehf. byggingaverktakar bauð rúmar 45,6 milljónir króna, eða 94% af kostnaðaráætlun. Framkvæmdin er á vegum Norðurorku, stefnt er að því að hefja framkvæmdir í næsta mánuði en þeim á að vera lokið 20. október nk.

Nýjast