Guðmundur Hólmar að jafna sig eftir bílslys

„Heilsan er bara þokkaleg. Ég er stífur í hálsi og baki en þetta er allt að koma til,” sagði Guðmundur Hólmar Helgason handboltamaður í liði Akureyrar í spjalli við Vikudag í morgun. Eins og við greindum frá í gær lenti Guðmundur í hörðum árekstri á leiðinni út á Akureyrarflugvöll í gærmorgun og missti þar með af bikarleiknum gegn Víkingi. Betur fór en á horfðist og slapp fólk við alvarleg meiðsli.

 

„Ég er mættur í skólann og er bara borðandi bólgueyðandi. Svo er móðir mín hjúkka þannig að það er séð vel um mig,” segir Guðmundur. Hann segist ætla að taka næstu tvo daga í afslöppun en stefnir svo á að byrja að æfa á ný í lok vikunnar.

„Ég verð bara í fríi og fer í sund og nudd og svoleiðis. Vonandi verð ég svo mættur til æfinga á miðvikudag eða í síðasta lagi á fimmtudag.”

Framundan er stórleikur N1-deildinni á sunnudaginn kemur er tvö efstu liðin, Akureyri og Fram, mætast í toppslag og ætlar Guðmundur sér að ná þeim leik.

„Ég er eiginlega viss um að ná þeim leik. Ég vona það allavega,” segir hann.

Nýjast