Í Bárðardal næst nú samfellt samband um næstum allan dalinn frá Goðafossi áleiðis inn á Sprengisand. Frá Slórfelli á Möðrudalsöræfum er nú samband á hluta af veginum inn að Öskju og að Herðubreiðalindum. Jafnframt hefur Síminn gert breytingar á GSM stöð sinni á Húsavíkurfjalli til að auka drægni hennar. Nú er langdrægni stöðvarinnar um 100 km á haf út og nær þjónustusvæðið nú norður fyrir Grímsey. Einnig hefur sambandið verið stórbætt til suðurs í áttina að Þeystareykjum og hálendinu þar í kring. Þessir nýju langdrægu GSM sendar eru viðbót við þá miklu uppbyggingu sem Síminn hefur ráðist í á landsbyggðinni og á miðunum allt í kringum landið á síðustu mánuðum. Áætlanir eru um áframhaldandi uppbyggingu á næstu vikum, segir í fréttatilkynningu.