01. júní, 2008 - 15:07
Fréttir
Haraldur Ólafsson uppstoppari á Akureyri hefur að undanförnu verið að stoppa upp ísbjörn. Þetta er annar ísbjörninn sem Haraldur stoppar
upp en þann fyrri stoppaði hann upp ásamt kollega sínum í Reykjavík.
Vinnan við uppstoppunina gengur vel að sögn Haraldar en hann varð fyrir því óláni að viðbeinsbrotna á dögunum og getur því
ekki beitt sér að fullu en segist þó ætla að reyna að klára verkið á næstu dögum. Hann hefur notið aðstoðar Sigurðar
Guðmundssonar og Svíans Ove Lundström við verkið. Haraldur er langt komin með verkið og segir björninn koma mjög vel út og hann er mjög
sáttur með það sem komið er. Uppstoppunin fer fram á verkstæði sem Haraldur hefur komið upp heima hjá sér. Hann segir að
þó vinnan við uppstoppunina megi virðast auðveld sé hún langt frá því að vera það og þetta sé heilmikið
ferli. "Afurðin kemur frá Grænlandi, ísbjörninn er verkaður þar og saltaður, síðan er hann sendur hingað heim og settur í
sútun. Svo fær maður skinnið og pantar búk, sem er yfirleitt frá Bandaríkjunum eða Norðurlöndunum. Svo er bara að vinna úr
því. Þetta hljómar ekki erfitt en er gríðarleg vinna," segir Haraldur og bætir því við að hann hafi einnig fengið góða
hjálp frá vinum og vandamönnum.
Aðspurður um hvað verði um björninn þegar hann hefur lokið sínu verki segir Haraldur að það sé einkaaðili sem eigi björninn og
því fari hann sennilega ekki á safn. Haraldur sagði að hann og Sigurður Guðmundsson stefndu að því að taka að sér fleiri svona
stór verkefni, eins og t.d. að stoppa upp fleiri ísbirni og jafnvel skógarbirni. "Það hljóta að vera til söfn hér á landi sem hafa
áhuga á því að eignast slíkar skepnur."