Markmiðið er m.a. að vekja áhuga grænlenskra ungmenna á eigin menningu og tungu, sem lið í því metnaðarfulla verkefni að leiða þjóðina til sjálfstæðis. Einn liður í þessu starfi er að freista þess að sérhanna grænlenskt skólakerfi og sníða það að grænlenskum aðstæðum í stað þess að laga hið danska kerfi að aðstæðum á Grænlandi. Þess vegna hefur verið höfð hliðsjón af inúítasamfélögum í öðrum löndum og einnig leitað fyrirmynda hjá norðlægri smáþjóð, eins og Íslandi. Sendinefndin heimsótti fleiri skóla hér á landi og fundaði með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra.
Fundinn með grænlensku gestunum í MA sátu Jón Már Héðinsson skólameistari, Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari og Hildur Hauksdóttir, brautarstjóri almennrar námsbrautar. Að sögn Hildar spurðu gestirnir mjög um starfsemi og rekstur Menntaskólans og hrifust af mörgu í starfsemi hans. Sérstaklega voru þeir áhugasamir um hraðlínu almennrar brautar, sem gefur framúrskarandi námsmönnum kost á að koma rakleitt í MA úr 9. bekk. Einnig vakti athygli þeirra starf skólans að því að draga úr brottfalli án þess að slá á námskröfur, en brottfall úr námi hefur lengi verið mikið vandamál í grænlenskum skólum. Þá skoðuðu grænlensku gestirnir skólahúsnæði MA.
Með ráðherranum í för voru Vittus Qujaukitsoq ritari hans og Kunuunnguaq Fleischer ráðgjafi heimastjórnarinnar.