Sundfélagið Óðinn gerði góða ferð á sundmót SH sem haldið var í Hafnarfirði sl. helgi en alls tóku 12 félög þátt í mótinu. Keppendur Óðins unnu til 10 verðlauna í opnum flokki.
Bryndís Rún Hansen vann til gullverðlauna í 50 baksundi og 50 m flugsundi, silfur í 400 m fjórsundi, 100 m flugsundi og 100 m fjórsundi og brons í 100 m baksundi. Halldóra Sigríður Halldórsdóttir hlaut silfur í 100 m skriðsundi og brons í 50 m skriðsundi og Hildur Þórbjörg Ármannsdóttir vann til silfurverðlauna í 200 m baksundi. Þá vann kvennasveit Óðins brons í 4x50m baksundi en sveitina skipuðu þær Bryndís Rún Hansen, Hildur Þórbjörg Ármannsdóttir, Júlía Rún Rósbergsdóttir og Halldóra Sigríður Halldórsdóttir.
Einnig voru veittar viðurkenningar fyrir stigahæstu sundin í hverjum flokki fyrir sig. Nanna Björk Barkardóttir átti stigahæsta sund mótsins í meyjaflokki en hún fékk 479 FINA stig fyrir 200 m fjórsund. Bryndís Rún Hansen átti þriðja stigahæsta sund í opnum flokki og annað stigahæsta í stúlknaflokki þegar hún synti 200 m fjórsund og fékk fyrir það 709 Fina stig. Þá var Kári Ármannsson þriðji stigahæstur sveina með 283 stig fyrir 50 m skriðsund.
Einnig féllu fimm Akureyrarmet á mótinu og átti Nanna Björk Barkardóttir þrjú þeirra í meyjaflokki, í 400 m fjórsundi, 200 m fjórsundi og 50 m flugsundi. Þá setti Bryndís Rún Hansen Akureyrarmet í kvenna- og stúlknaflokki í 50 m baksundi. Einnig voru veitt verðlaun í aldursflokkum og þar bættist all verulega í verðlaunasafnið hjá Óðni.