Glæsilegur sigur Akureyrar á Kópavogi í Útsvari í kvöld

Lið Akureyrar sigraði lið Kópavogs með glæsibrag í Útsvari, spurningakeppni Sjónvarpsins í kvöld. Akureyringar hlutu 87 stig gegn 74 stigum Kópavogs og eru Akureyringar því komnir áfram í keppninni. Lið Akureyrar mætti nokkuð breytt til leiks í kvöld frá síðustu árum. Sjónvarpskonan Hilda Jana Gísladóttir er áfram í liðinu en þeir Birgir Guðmundsson lektor við Háskólann á Akureyri og Hjálmar Brynjólfsson laganemi, komu inn liðið í stað þeirra Erlings Sigurðarsonar og Pálma Óskarssonar og öll stóðu þau sig með miklum sóma.  

Lið Kópavogs byrjaði betur í kvöld og hafði fjögurra stiga forystu eftir bjölluspurningarnar. Eftir það tóku Akureyringar leikinn í sínar hendur og tryggðu sér sannfærandi sigur. Glæsileg frammistaða það. Lið Kópsvogs hefur verið sigursælt í keppninni en mætti með nýja liðsmenn til leiks í kvöld. Liðið á þó enn möguleika á áframhaldandi þátttöku, sem fjórða stigahæsta tapliðið en fjögur taplið komast áfram. Þegar tvær umferðir eru eftir í undankeppninni eru Fjallabyggð með 82 stig og Reykanesbær með 78 stig, komin áfram sem taplið en Vestmannaeyjar með 77 stig og Kópavogur með 74 hafa enn ekki tryggt sér áframhaldandi þátttöku en það skýrist í næstu tveimur þáttum.

Nýjast