Geir Guðmundsson, leikmaður Akureyrar Handboltafélags, hefur verið boðið á æfingar með þýska stórliðinu Kiel. Engar samningaviðræður eru inn í myndinni en Geir mun æfa með liðinu í vikutíma og heldur út eftir leik Hauka og Akureyrar í N1-deildinni þann 16. desember. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.
„Þetta er besta félagslið í heimi og þarna eru margir af bestu leikmönnum í heimi og það er frábært að fá að umgangast þá,“ sagði Geir við blaðið.
Geir er ekki eini leikmaður Akureyrar sem hefur farið til æfinga hjá Kiel, en Guðmundur Hólmar Helgason fór einnig út til æfinga fyrir rúmu
ári síðan en þeir félagar eru tveir af efnilegustu leikmönnum landsins.