Fyrirtækið Rafeyri hlýtur “Brostu verðlaun” janúarmánaðar

Fyrirtækið Rafeyri hlýtur "Brostu verðlaun" janúarmánaðar 2009, fyrir framlag sitt til samfélagsins en fyrirtækið setti upp, í samstarfi við Becromal og Norðurorku, stórt blikkandi hjarta í Vaðlaheiði til að lýsa upp svartasta skammdegið á erfiðum tímum. Það eru Vikudagur og Ásprent Stíll sem standa að útnefningunni. Hjartað í Vaðlaheiði, sem er á stærð við knattspyrnuvöll, hefur vakið mikla athygli.  

Heyrst hefur m.a. af því að pör hafi látið sér til hugar koma að gifta sig inn í hjartanu. Davíð Hafsteinsson tæknistjóri Rafeyrar tók við viðurkenningunni fyrir hönd fyrirtækisins og hann var að vonum ánægður með útnefninguna. Kveikt var á hjartanu 29. nóvember sl. en alls eru í því 375 perur. Í upphafi voru perurnar rauðar en eitthvað var um þeim væri stolið og voru þá hvítar settar í staðinn. Nú eru allar perurnar hvítar og lýsa vel. Þá tók einhver upp á því að slökkva á hjartanu eitt laugardagskvöldið. Starfsmenn Rafeyrar hafa ekki látið neitt slíkt á sig fá og fylgjast vel með "hjartastoppi" og eða "hjartabilun." Davíð sagði að uppsetning hjartans hefði reynst viðameiri en menn gerðu ráð fyrir og að það hafi tekið 3-4 karla vikuvinnu að setja ljósin upp.

Upphaflega stóð til að láta hjartað lýsa upp skammdegið út janúarmánuð en vegna þess hversu verkefnið hefur fengið jákvæð viðbrögð verður kveikt á út febrúarmánuð og reyndar sagði Davíð að full ástæða væri til að hafa kveikt í heiðinni fram yfir páska.

Fjölmargir eru að vinna að jákvæðum verkefnum á Akureyri og óska aðstandendur viðurkenningarinnar eftir því að bæjarbúar leggi málinu lið og bendi á fyrirtæki, félagasamtök eða einstaklinga, sem þeir telja að eigi skilið að hljóta viðurkenningu fyrir framlag sitt. Hægt er að taka þátt hér á vef blaðsins, vikudagur.is

Nýjast