Fyrirspurn til bæjarstjórnar Akureyrar

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Þrátt fyrir að bæjarstjórn Akureyrar hafi nú þegar samþykkt að breyta skipulagi miðbæjarins okkar í grundvallaratriðum frá því sem ákveðið var samhljóða árið 2014 leyfi ég mér að varpa til hennar eftirfarandi fyrirspurn: Hefur bæjarstjórn vilja til þess að efna í haust til íbúaþings um ofangreindar breytingar, leggja þar fram rök fyrir því helsta sem í þeim felst, upplýsa um einstaka þætti og ræða við væntanlega þátttakendur? Því miður var lítið samband haft beint við bæjarbúa  í ferlinu undanfarna mánuði og því borið við að Covid-19 hafi komið í veg fyrir það ef marka má greinargerð sem verkfræðistofa gerði fyrir bæjarstjórn.

Gott tækifæri

Sjálfur bar ég slíka tillögu fram í ítarlegum athugasemdum mínum við umræddar breytingar. Þar taldi ég ráðlegast að bíða eftir að Covid-19 gengi yfir og taka málið upp á ný og þá í góðri samvinnu og sátt við bæjarbúa eins og gert var með góðum árangri við undirbúning og afgreiðslu miðbæjarskipulags 2014. Því miður var þessari tillögu ekki einu sinni svarað hvað þá að nokkur rök væru færð fyrir því að hún væri í það minnsta óraunhæf. Þegar allt bendir nú til að veiran vonda verði að mestu gengin yfir á haustdögum ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að halda slíkt íbúaþing.

Verði það gert fengju bæjarfulltrúar kjörið tækifæri til að færa fram rök sín fyrir einstökum breytingum, gætu rætt þær milliliðalaust við þátttakendur og hlustað á athugasemdir þeirra, leiðrétt missagnir ef fram koma og aukið skilning á breytingunum meðal bæjarbúa. Það eitt hlýtur að vera verðugt markmið.

Í seinni tíð hefur þeim fjölgað verulega sem telja vænlegan kost að koma í framkvæmd
útfærslu á verðlaunatillögu Skotans Graeme Massie um skipulag miðbæjarins frá árinu 2010. 
Hún þótti djörf og athyglisverð og vakti athygli langt út fyrir landsteinanna
auk þess að uppfylla öll meginmarkmið sem íbúaþingið 2004 mótaði.

Hugmyndir að umræðuefnum

Á slíku íbúaþingi gæti til að mynda verið fróðlegt að fá svör við eftirfarandi spurningum:

-Hvernig getur fækkun gangstíga yfir Glerárgötu milli Hofs og Skipagötu úr þremur í einn stuðlað að betra aðgengi gangandi fólks milli miðbæjarins og Pollsins?

-Hvernig stuðla fjórar akreinar á umræddum vegarspotta að því að bæta umferðarflæði akandi þegar þær þrengjast í tvær á eina gangstígnum þarna sem verður auk þess með upphækkun? 

-Hvernig samræmist það vistvænum miðbæ að hafa í honum miðjum slíka hindrun þar sem mengandi bílar af fjórum akreinum sitt úr hvorri átt eru sífellt að sæta lagi að komast áfram í kappi við gangandi fólk?

-Hvað mælir á móti því að fækka akreinum í eina í hvora átt við Torfunef að sunnan og Strandgötu að norðan og þar hinkri bílar eftir því að komast áfram í gegnum þetta hjarta miðbæjarins?

-Hvað liggur að baki hugtökunum “umfangi, tíma og kostnaði”  sem var það eina sem talið var upp í runu þegar óskað var eftir skýringum á því að hverfa frá að breyta ofangreindum vegspotta í samræmi við skipulagið frá 2014?

-Hvers vegna var horfið frá að endurvekja  lækinn í Skátagilinu og hann haldi áfram í einhverri mynd niður að hafnarsvæðinu og “verði í náttúrlegri mynd að hluta með tjörnum og fossum þar sem við á” eins og gert var ráð fyrir í skipulaginu frá 2014?

-Hvers vegna hækkar bæjarstjórn byggingar á svæðinu austan Skipagötu um eina til tvær hæðir á sama tíma og hún fagnar niðurstöðum skoðanakönnunar um lægri byggð á Oddeyrinni sem enginn treystir sér til að byggja eftir?

Hér eru aðeins taldar upp örfáar spurningar sem fróðlegt og jafnvel gagnlegt væri fyrir bæjarbúa og bæjarstjórn að ræða saman um. Reynslan sýnir að oft koma út úr slíkum viðræðum nýjar og ferskar hugmyndir. Það sannaðist rækilega á íbúþinginu sæla hér á Akureyri þegar meginlínur voru lagðar fyrir það skipulag vistvæns miðbæjar sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn árið 2014 en vikið var frá með samþykkt sömu bæjarstjórnar á dögunum.

Aldrei og seint

Að lokum óska ég þess vinsamlega að bæjarstjórn - eða forseti bæjarstjórnar fyrir hennar hönd – svari opinberlega ofangreindri spurningu minni um íbúaþing sem allra fyrst.  Telji hún að þessi tillaga sé komin of seint fram er rétt að vísa til þess að ég stakk upp á halda umrætt íbúaþing áður en bæjarstjórn samþykkti breytingar á miðbæjarskipulaginu.  Í annan stað tel ég aldrei of seint að ræða við íbúa okkar ágæta bæjar enda hafa áralöng kynni mín af þeim sannfært mig um að þeir eru langflestir ágætlega viðræðuhæfir.

-Ragnar Sverrisson kaupmaður


Athugasemdir

Nýjast