22. janúar, 2009 - 14:16
Fréttir
Fullt var út úr dyrum á borgarafundi um niðurskurð í menntamálum í Deiglunni á Akureyri í gærkvöld. Salurinn brást
vel við framsöguerindum og spurningum rigndi yfir pallborðið. Fundurinn krefst þess að haldin sé vörður um grunnkerfi íslensku
þjóðarinnar, en þau ekki skorin niður á tímum sem kalla eftir að aukið sé við.
Fundurinn bendir á að menntakerfi okkar sé lífæð framtíðar og jarðvegur innri auðlegðar; "við höfnum niðurskurði til
menntamála um allt land og krefjumst í stað aðgerða sem eru í einhverju samhengi við þann veruleika sem við okkur blasir í dag. Þess er
krafist að ungu kynslóðinni verði séð fyrir þeim verkfærum sem eru þeim nauðsynleg til að takast á við framtíðar verkefni
þjóðarinnar og er góð menntun grunnur þess," segir í samþykkt fundarins.
Í pallborði sátu Þorsteinn Gunnarsson rektor HA, Jón Már Héðinsson skólameistari MA, Hjalti Jón Sveinsson skólastjóri
VMA, Gunnar Gíslason fræðslustjóri Akureyrarbæjar, auk Höskuldar Þórhallssonar þingmanns, sem sæti á í menntamálanefnd
Alþingis og Elínar Hallgrímsdóttur bæjarfulltrúa.
Á fundnum fluttu framsögu: Ragnar Sigurðsson, formaður Félags Stúdenta við Háskólann á Akureyri, Rakel Snorradóttir og
Sólveig Robin Gunnarsdóttir, framhaldsskólanemar og Rúnar Sigþórsson, dósent við Háskólann á Akureyri. Fundarstjóri var
Edward H. Huijbens, dósent við HA og forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.
Hér má sjá myndir frá fundinum og frá
mótmælunum á Ráðhústorgi