Friðsældarforskotið

Huld Hafliðadóttir
Huld Hafliðadóttir

Huld Hafliðadóttir skrifar:

Nýlega rakst ég á færslu á Facebook ritaða af Ólafi Grétari fjölskylduráðgjafa í tilefni bóndadagsins. Færslan var líklega ætluð karlmönnum, frekar en öðrum, en ég tók hana til mín af innihaldinu einu og fann löngun til að deila með mér.

Í færslunni vitnar Ólafur í heimspekinginn og rithöfundinn Gunnar Dal. Gunnar taldi að eitt af því dýrmætasta sem íslenskir karlmenn ættu, væri að hafa lifað síðustu aldir án herþjálfunar á mikilvægum mótunarárum sínum, sem m.a. fela í sér að sjá sig fyrir sér taka líf annars manns. Slíka þjálfun hafi karlar í nágrannalöndunum gengist undir á tímum herskyldu. Er Gunnar sagður hafa talað af mikilli ástríðu um hvað það væri mikil gjöf fyrir íslenska karlmenn að hafa ekki fengið þennan kynslóðaarf. Þetta gæfi þeim mikla möguleika á að lifa friðelskandi lífi og þar með njóta þeirrar auðlindar sem umhyggjuhæfileikar þeirra almennt eru.

Mér fannst þetta virkilega góð lesning og enn mikilvægari áminning um það hve raunverulega heppin við erum og höfum verið hér á eylandinu fagra undanfarnar aldir.

Það er alls ekki sjálfgefið að fæðast á stað og inn í þá menningu sem laus er við hernað og það sjáum við betur og betur með aukinni hnattvæðingu. Það er nefninlega stutt í stríðsátökin og friðurinn er oft úti áður en við vitum af.

Því er mikilvægast af öllu að muna að friður hefst í huga hvers manns og með því að iðka friðsæld leyfum við þessari mikilvægu gjöf að vaxa áfram og vonandi skila sér til komandi kynslóða. Og til að enda á þessum friðelskandi nótum er ekki úr vegi að minnast orða víetnamska búddamunksins Thích Nhất Hạnh sem lést um liðna helgi, 95 ára að aldri: „Upprættu ofbeldi í lífí þínu og lærðu að lifa í samkennd og meðvitund. Leitaðu friðar. Þegar þú býrð yfir innri friði, er raunverluegur friður með öðrum mögulegur.“

Huld Hafliðadóttir


Athugasemdir

Nýjast