Framleiðsla í nýrri aflþynnuverk- smiðju í Krossanesi hefst fyrir jól

Ráðgert er að hefja framleiðslu í nýrri aflþynnuverksmiðju Becromal í Krossanesi á Akureyri viku fyrir næstu jól en gangi það ekki eftir þá strax á nýju ári. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem forsvarsmenn Becromal stóðu fyrir nú fyrir stundu.  

Nýlega var skipt um verktaka sem sér um byggingu verksmiðjunnar og ganga framkvæmdir vel, að sögn Aldo C. Fasan aðstoðarforstjóra Becromal í Mílanó á Ítalíu. Becromal er hátæknifyrirtæki og því skiptir miklu máli að vandað sé til verka við byggingu húsnæðisins. Starfsemin er nærri sjó og koma þarf í veg fyrir að selta komist inn í húsnæðið. Verksmiðjan í Krossanesi verður sú stærsta sinnar tegundar í heiminum þegar hún tekur til starfa. Þar munu starfa um 90 manns, allt Íslendingar og er stefnt að því að fyrstu 20 starfsmennirnir hefji störf þann 1. nóvember nk. Mikill áhugi er fyrir störfum hjá fyrirtækinu og eins og fram hefur komið sóttu um 100 manns kynningarfund sem Becromal hélt í VMA nýverið. Verksmiðjan verður starfrækt 24 klukkutíma á sólarhring allt árið um kring. Gríðarlegt rafmagn þarf til framleiðslunnar og kom fram á fundinum í dag að Landsnet muni hefja afhendingu á rafmagni þann 15. október nk.

Nýjast