Framkvæmdir hafnar í Hlíðarfjalli

Framkvæmdir við uppsetningar nýrrar barnalyftu í Hlíðarfjalli eru hafnar og mun lyftan verða staðsett sunnan við núverandi Hólabraut. Jarðvegsframkvæmdir hafa staðið yfir í nokkrar vikur og segir Kristinn H. Svanbergsson, deildarstjóri íþróttadeildar hjá Akureyrarbæ, að stefnt sé að því að taka lyftuna í notkun í vetur.  

Óvíst er hins vegar með aðrar framkvæmdir fyrir veturinn. „Það er forgangsverkefni hjá okkur að koma þessari lyftu upp. Svo verðum við bara að sjá til hvernig tekst til með þetta hvort við förum í frekari verkefni síðar, " segir Kristinn, en einnig var stefnt að því að reisa sumarhús eða heilsárshús til viðbótar við Skíðahótelið.

Þá eru uppi hugmyndir um uppbyggingar verslunar- og þjónustusvæðis við Hlíðarenda, neðan Hlíðarfjalls. Skipulagsnefnd Akureyrarbæjar óskaði eftir umsögn íþróttaráðs vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Í bókun íþróttaráðs kemur fram að ráðið fagnar hugmyndum um uppbyggingu þjónustu- og verslunarsvæðis við Hlíðarenda og telur að slíkt svæði geti styrkt starfsemi í Hlíðarfjalli sem og aðra ferðaþjónustu á svæðinu. Íþróttaráð hvetur þó til að skoðað verði með hvaða hætti fyrirhugað svæði geti tengst skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli m.t.t. öryggis þeirra sem hugsanlega fara á milli svæðanna á skíðum.

Nýjast