Framkvæmdaleyfi vegna Vaðlaheiðarganga samþykkt í Svalbarðsstrandarhreppi
Áður hafði sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkt framkvæmdaleyfi vegna Vaðlaheiðarganga og var sveitarstjóra falið að gefa það út. Framkvæmdaleyfi hefur því verið gefið út beggja vegna Vaðlaheiðar og því ætti að fara að styttast í að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng verði boðnar út. Stjórn Vaðlaheiðarganga hf. samþykkti á fundi sínum á Akureyri nýlega að gefa öllum sex aðilunum sem þátt tóku í forvali, kost á að taka þátt í útboði vegna gerðar Vaðlaheiðarganga. Útboðsgögn yrðu þó ekki send út fyrr en framkvæmdaleyfi hefðu verið gefin út af hálfu Svalbarðsstrandarhrepps og Þingeyjarsveitar. Íslensku fyrirtækin sem þátt tóku í forvalinu eru Ístak og Norðurverk en á bak við Norðurverk eru sex fyrirtæki í Eyjafirði; Árni Helgason ehf., SS Byggir ehf., Skútaberg ehf, GV Gröfur ehf, Rafeyri ehf. og Norðurbik ehf. Hin fjögur eru samvinnuverkefni erlendra og íslenskra fyrirtækja. Í tengslum við gerð Vaðlaheiðarganga þarf að byggja bráðarbirgðabrú yfir þjóðveginn hjá Hallandsnesi vegna efnisflutninga frá gangnagerðinni undir veginn. Ráðgert er að bjóða bráðabirgðabrúna út nú í haust.