Fólk er beðið að sýna andarnefjunum aðgát

Andarnefjurnar sem dvalið hafa í Pollinum síðustu vikurnar virðast sýna vegfarendum á landi álíka mikinn áhuga og þeir sýna þeim. Þessir fallegu hvalir, sem nú eru orðnir fjórir, leika listir sínar af miklum móð, og gætu vart boðist betri áhorfendapallar í hvalaskoðun en þeir við Drottningarbrautina.  

Fólk er hins vegar beðið að sýna andarnefjunum tillitssemi, sérstaklega sjófarendur á litlum mótorbátum, sjóköttum eða öðru þvíumlíku. Hætt er við því að ef mikil og óvænt styggð kemur að dýrunum þá geti þau hreinlega synt upp í fjöru eða sýnt einhver ófyrirséð hræðsluviðbrögð. Í hádegisfréttum Útvarps hvatti Sigursteinn Másson, fulltrúi Alþjóða dýraverndunarsjóðsins (IFAW), til þess að fólk fari með fyllstu varúð um svæðið enda sé mikilvægt að þetta ævintýri um hvalina endi vel.

Sigursteinn sagði að IFAW þyki þetta mjög merkilegt; sams konar hegðun andarnefja eigi sér stað í Skotlandi en annars sé þetta afar sjaldgæft. Hann segir að andarnefjurnar í Pollinum hafi það bersýnilega gott en vill að fólk sem er á vélknúnum tækjum á svæðinu fari með aðgát og styggi ekki dýrin vísvitandi. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Nýjast