Með hjálp góðra manna tókst að festa kaup á stjórnklefa „GULLFAXA" Boeing 727-108C Flugfélags Íslands, TF-FIE, fyrir hönd Flugsafns Íslands á Akureyri. Þessi flugvél var fyrsta þotan í eigu Íslendinga og markaði tímamót í íslenskri flugsögu þegar hún kom til landsins þann 24. júní árið 1967. Hún var í notkun hérlendis á vegum Flugfélagsins og síðar Flugleiða fram í ársbyrjun 1985. Í september árið 1979 fékk vélin einkennisstafina TF-FLH til samræmis við aðrar flugvélar Flugleiða sem nú báru allar einkennisstafi í „FL"-seríunni. Hún var í eigu Flugleiða þar til í janúar árið 1984 að TF-FLH var seld fyrirtækinu TAG Leasing í Bandaríkjunum en var svo leigð af því fyrirtæki fram til febrúar 1985. Var vélin þá afskráð á Íslandi.
Í fyrstu áhöfn Gullfaxa voru Jóhannes Snorrason flugstjóri, flugmennirnir Gunnar Berg Björnsson og Halldór Hafliðason og flugvélstjóri var Ásgeir Magnússon.