Sigurður Hermansson umdæmisstjóri Flugstoða segir að ekki hafi staðið til að halda flugbrautinni opinni nema að hluta til á meðan framkvæmdir stæðu yfir. "Völlurinn er ekki lokaður en það eru takmarkanir og brautin er ekki nógu löng eins og er fyrir millilandaflug," segir Sigurður. Bein flug á vegum Iceland Express frá Akureyri til Danmerkur á morgun, föstudag og á sunnudaginn hafa verið færð til Egilsstaða. Sigurður segir að það velti allt á veðurfari hvenær framkvæmdum á brautinni lýkur.
"Við ætluðum að byrja á mánudaginn en erum þess í stað að byrja núna ( fimmtudag ) vegna veðurfars og erum þar af leiðandi búnir að missa þrjá daga úr vinnu. Veðrið ræður því alfarið hvort við verðum búnir að ljúka verkinu fyrir næstu flug þar á eftir, en ef veðrið verður okkur óhagstætt gætu fleiri flug fallið niður," segir Sigurður. Hann segir að unnið sé allan sólarhringinn við framkvæmdirnar þegar veður leyfir svo flug geti hafist með eðlilegu móti að nýju.