Flóttaleiðir

Ragnar Sverrisson kaupmaður skrifar
Ragnar Sverrisson kaupmaður skrifar

Í ágætu viðtali við Andra Teitsson bæjarfulltrúa í síðasta Vikudegi var honum tíðrætt um nauðsyn þess að koma á flóttaleiðum í núverandi ráðhúsi bæjarins. Þetta er laukrétt hjá honum og ekki seinna vænna að uppfylla lágmarkskröfur í þeim efnum ekki síst ef ætlunin er að halda áfram núverandi starfsemi í húsinu.  Slíkt verkefni ætti ekki að vefjast fyrir bæjarfulltrúum okkar því mín reynsla síðustu áratugina sýnir að þeir hafa náð undragóðum árangri við að útbúa og nýta sér fjölbreyttar flóttaleiðir í málefnum bæjarins. Sá flótti snýst um að komast hjá að framkvæma það sem búið er að ákveða í bæjarstjórn og gildir þá einu hvort þær ákvarðanir voru samþykktar með naumum meirihluta eða að um þær hafi verið algjör samstaða. Aðalatriðið er að forðast framkvæmdir ef nokkur                                kostur er og hefur hugmyndaflugið oft verið óviðjafnanlegt.

Nefna má nokkur dæmi um þennan sífellda flótta.

Eitt af því sem ákveðið var í miðbæjarskipulaginu frá 2014 var að útfæra og byggja umferðarmiðstöð fyrir norðan Ráðhúsið. Fljótlega kom fram ákafur vilji til að finna flóttaleið frá þeirri ákvörðun og stofnuð nefnd til að athuga hvort þetta væri örugglega besti staðurinn fyrir slíka umferðarmiðstöð. Eftir mikla vinnu og ómældan kostnað komst nefndin auðvitað að því að þetta væri bara ágætis staður fyrir slíka stöð. En ekkert bólar á undirbúningi hvað þá framkvæmdum og trúlega er verið að leita logandi ljósi að nýrri flóttaleið frá verkefninu. Kannski þriðja nefndin verði brátt skipuð um málið!

Ákveðið var með töluverðum bægslagangi að banna kattahald í bænum en svo var hætt við það vegna þess að einhverjir voru á móti því auk þess sem það varð aðhlátursefni alþjóðar. Þar með var flóttaleiðin greið og kettir aldrei frjálsari í bæjarlandinu.

Samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn deiliskipulag miðbæjarins árið 2014. En  svo var loks fundin flóttaleið frá þeirri ákvörðun þar sem „ekki náðist samkomulag um framkvæmdina“ eins og sagt var og því ekkert hægt að gera nema allir væru sammála. Með því að bera fyrir sig slík „rök“ er hverjum bæjarfulltrúa afhent neitunarvald og þar með tryggðar farsælar flóttaleiðir frá því að koma ákvörðunum í framkvæmd.   

Ákveðin var veruleg breyting í bæjarstjórn á ofangreindu skipulagi en til þess að komast hjá því að það óbermi fari í framkvæmd hefur umræðunni nú verið beint að gamla íþróttasvæðinu. Hver veit nema komist verði að niðurstöðu um það verkefni í fjarlægri framtíð en þá verður áreiðanlega fundin fær flóttaleið svo ekki komi til framkvæmda.

Til þess að þurfa ekki að taka afstöðu til tillagna sem fram voru settar um uppbyggingu syðst á Eyrinni var brugðið á það ráð að hafa allsherjar skoðanakönnun um hana sem var kolfelld og þar með var sú flóttaleið greið og tryggt að ekkert gerðist á svæðinu. Auðvitað ætti bæjarstjórnin að beita sér fyrir því að kalla fram eða semja sjálf tillögur um uppbyggingu þarna sem bæjarbúar geta sætt sig við og byggingafyrirtæki treysta sér til að framkvæma. Nei, það gerir hún auðvitað ekki enda vísast að þá þurfi hún að huga að glænýjum flóttaleiðum til að tryggja að ekkert gerist.

Ekki sér fyrir endann á vandræðaganginum við Tónatröð en vísast finnst góð flóttaleið frá því verkefni eins og mörgum öðrum.

Í tilefni af því að bæjarbúar eru orðnir 20 þúsund talsins er rétt að minna á að þegar við vorum bara 7 til 10 þúsund tókst í áraraðir að halda uppi almenningssalerni fyrir gesti og gangandi. Nú er það ekki talinn vinnandi vegur enda þótt Grenivík og Kópasker bjóði upp á slíka þjónustu. Í sumar má því búast við að sjá þúsundir ferðamanna í spreng um allan bæ að leita flóttaleiða í örvæntingarfullri viðleitni til að létta á sér.

Ragnar Sverrisson kaupmaður


Athugasemdir

Nýjast