Gríðarlegt fjölmenni hefur verið á Dalvík í kvöld, en þar stendur yfir fiskisúpukvöld. Talið er að um 20 þúsund manns hafi verið á rölti um götur bæjarins og notið gestrisni heimamanna sem bjóða gestum sínum sem og sveitungum upp á fiskisúpu.
Júlíus Júlíusson framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla segir að stennmingin hafi verið róleg og notaleg, “og við erum bara mjög ánægðir með kvöldið,” segir hann. “Það hefur allt gengið vel, hér er mikið fjölmenni, en allir rólegir og andrúmsloftið er afslappað.”
Fiskisúpa var boðin á um 50 heimilum á Dalvík, en hvar sem tveir logandi kyndlar voru við hús var í boði rjúkandi heit súpa. Þá leggja heimamenn æ meiri vinnu í skreytingar við hús sín og bryddað var upp á þeirri nýbreytni í ár að útsagaðan fisk og staur til að festa hann á. Heimilismenn fengu svo það verkefni að skreyta fiskinn eftir sínu höfði og víst er að gestir Fiskidagsins geta gert sér góðan göngutúr um bæinn og skoðað listaverkin.