Fjöldi fólks tók þátt í hátíðarhöldum á Akureyri í dag

Fjöldi fólks á öllum aldri tók þátt í hátíðarhöldum á Akureyri í dag, þjóðhátíðardaginn 17. júní. Hefðbundin dagskrá hófst í Lystigarðinum kl.13.00 með fánahyllingu. Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni við Glerárkirkju flutti bænagjörð og blesssun og Kór Glerárkirkju söng undir stjórn Valmars Väljaots. Þá flutti Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar ávarp. Frá Lystigarðinum var svo haldið í skrúðgöngu í miðbæinn.  

Í miðbænum voru skátarnir búnir koma upp hinu sívinsæla skátatívolíi þar sem hægt var að reyna sig við ýmsar þrautir.  Einnig voru hjólabílar, hoppukastalar og fleira. Þá stóð yfir dagskrá á sviði á Ráðhústorgi frá kl. 14-17. Þar stigu á stokk Lúðrasveit Akureyrar, Karlakór Akureyrar-Geysir, Leikhópurinn Lotta með atriði úr Hans Klaufa, Marimbasveit Giljaskóla, atriði úr leikritinu Dýrin í Hálsaskógi og Hvanndalsbræður spiluðu.  Í kvöld kl. 21.00 verður svo framhald á dagskránni á Ráðhústorgi. Þá stíga á svið hljómsveitin Buff, Leikhópurinn Lotta, akureyska hljómsveitin Sjálfsprottin spévísi, söngvarinn Geir Ólafsson tekur lagið og Hvanndalsbræður spila og syngja. Dagskráin nær svo hámarki um miðnætti þegar nýstúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri marsera í gegnum miðbæinn.

Nýjast