Fjöldi fólks skoðaði söfn á Akureyri á Íslenska Safnadaginn

Íslenski Safnadagurinn var í gær, sunnudag, og af því tilefni var frítt inn á öll söfn Akureyrar. Fjöldi fólks nýtti tækifærið og skoðaði fjölbreytt söfn bæjarins. Hefðbundin dagskrá var í Davíðshúsi, Nonnahúsi, á Minjasafninu og Sigurhæðum, en nýjar sýningar voru opnaðar í Friðbjarnarhúsi og á Iðnaðarsafninu.  

Í Friðbjarnarhúsi opnaði leikfangasýning þar sem gefur að líta leikföng frá síðustu öld úr safni Guðbjargar Ringsted. Guðbjörg byrjaði að safna leikföngunum sér til ánægju þegar hún var tvítug að aldri og hefur síðastliðin 18 ár safnað þeim með leikfangasafn að markmiði. Á Iðnaðarsafninu var ný sýning opnuð undir heitinu "Minningarbox". Á sýningunni eru dregnir fram gripir sem vekja áhuga og endurminningar fólks um árin 1930 - 1980. Gefur þar að líta Sól-sápu, Flóru smjörlíki, Valash, Bæjarabjúgu og Duffys gallabuxur svo fátt eitt sé nefnt.

Í Grýtubakkahreppi var einnig dagskrá í boði. Fjölskyldustund var í Laufáskirkju og í kjölfarið gátu gestir upplifað lífið á 19. öld í Gamla bænum. Í Útgerðarsafninu á Grenivík fengu gestir að prófa að beita og smakka rifna þorskhausa.

Nýjast