Fjölbreytt dagskrá um allan bæ á Akureyrarvöku

Akureyrarvaka verður sett annað kvöld klukkan 20.00 í Lystigarðinum í rökkurró, stemmningu og kósyheitum. Þar verður boðið upp á tónlist frá Retro Stefson og D.Rangers sem njóta mikilla vinsælda í Kanada, gjörning, upplestur fyrir unga sem aldna, rúnalestur og rjúkandi heitt kakó svo eitthvað sé nefnt.  

Klukkan 22.00 sama kvöld leggur Draugagangan af stað frá Minjasafninu þar sem að venju á þessum tíma árs færist vægast sagt draugalegur blær í innbæinn.  Á laugardaginn hefst svo hin eiginlega Akureyrarvaka sem markar lok Listasumars.  Fyrstu dagskrárliðirnir hefjast fyrir hádegi þegar kaffihús og verslanir opna með kaffi, lifandi tónlist og þægilegheitum. Þeir sem vilja hefja daginn á að dorga með börnunum sínum ættu að taka sér ferð með Haffara sem liggur við Torfunefsbryggju.  Á hádegi hefjast svo opnanir sýninga og uppákomur í söfnum, galleríum, Akureyrarkirkju, verslunum, Leirutjörn. Dæmi:  VeggVerk-Guðmundur Thoroddsen, Jónas Viðar Gallery-Sigryggur Baldvinsson, Ketilhúsið-Anna Gunnarsdóttir, Populus tremula-Bryndís, GalleriBOX-Siggi Eggerts og Raquel Mendez, Listasafnið á Akureyri -Sjónlist 2008, Súlnasalur í Sunnuhlíð-Billa og Heiða, DaLí Gallerí - Baltasar og Kristjana Samper, Amtsbókasafnið-Portraits of the north, Gallerí Víð8ttu601- Þórarinn Blöndal og Hanna Hlíf Bjarnadóttir og fleira.
Útimarkaðir, samkirkjuleg útimessa, flóamarkaðir, leikhús og sirkus eru auðvitað hluti af stemmningu Akureyrarvöku  og það sama gildir um tísku og falleg föt.  Tvær tískusýninar verða á Akureyrarvöku, bæði fyrir fínu frúrnar og þær sem yngri eru. Tónlistinni verða gerð góð skil á Akureyrarvöku - Bubbi Morthens, kóngurinn sjálfur í Gilinu, Hjaltalín í göngugötunni, Blind Derek and the backhouse band svo ekki sé nú minnst á sjálfa Sinfóníuhjómsveit Norðurlands sem í samvinnu við Leikfélag Akureyrar flytur Sögu dátans eftir Igor Stravinsky, þar sem er ádeila á auðsöfnun og ríkidæmi.
Utan miðbæjarsvæðisins má nefna heyskap og fyrirlestur í Akureyrarakademíunni sem staðsett er í Gamla Húsmæðraskólanum í Þórunnarstræti - notalega stemmningu og veitingar  í Laxdalshúsi þar sem Sigurður Hallmarsson fjöllistamaður sýnir verk sín.  Þing Þjóðræknisfélags Íslendinga fer fram í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju.
Akureyrarvaka nær hámarki á laugardagskvöldið þegar fólk safnast saman fyrir framan Samkomuhúsið þar sem Bakaríið við Brúna býður bæjarbúum upp á 16 metra langa ástarköku. Á meðan fólk gæðir sér á ástarkökunni opnar hvorki meira né minna en Ástarsafnið á Akureyri.  Í allt sumar hefur kossum, ástarjátningum og ástarsögum frá ungum sem öldnum verið safnað. Ástarsafnið, sem verður til húsa í gömlum strætó, mun leiða ástargöngu Akureyringa þar sem ástin mun gleðja augu og eyru og vonandi snerta hjörtu þeirra þar sem hún brýst fram á ótrúlegustu stöðum.  Leiðin liggur inn á Ráðhústorg og þaðan að Menningarhúsinu Hofi þar sem Anna Richards í gervi furðufuglsins mun birtast með fulltingi Röggu Gísla.

Nýjast