Fjölbreytt dagskrá um allan bæ á Akureyrarvöku

Undirbúningur fyrir Akureyrarvöku stendur nú sem hæst og er þátttaka einstaklinga og fyrirtækja góð, að sögn Guðrúnar Þórsdóttur framkvæmdastýru. Akureyrarvaka verður sett föstudagskvöldið 29. ágúst klukkan 20.00 í Lystigarðinum.   

Gestir garðsins, sem verður að venju upplýstur, geta notið ýmissa uppákoma víðs vegar í fallegum rjóðrum s.s.  tónlistar, upplesturs fyrir unga sem aldna, lesið verður í rúnir og hávamál, framinn verður gjörningur, tónlistarfólk frá Kanada flytur tónlist, veittar verða viðurkenningar fyrir fallega garða og boðið upp á heitt kakó. Klukkan 22 hefst svo Draugagangan, samvinnuverkefni Minjasafnsins og Leikfélags Akureyrar.  Draugagangan, sem hefur nú verið færð yfir á föstudagskvöld, hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár. Gangan hefst að venju við Minjasafnið og endar við Samkomuhúsið. Sjálf Akureyrarvaka fer svo fram á laugardeginum og stendur frá morgni og eitthvað fram yfir miðnætti.  Viðburðirnir og uppákomurnar eru eins fjölbreyttar og þær eru margar og mun boðsbréf berast íbúum bæjarins með Dagskránni á morgun en þar sem sífellt bætast við nýir dagskrárliðir verður einnig hægt að finna uppfærða dagskrá á heimasíðunum visitakureyri.is og akureyri.is

Hápunktar Akureyrarvöku eru ekki af verri endanum.  Áðurnefnd setning Akureyrarvöku í upplýstum Lystigarðinum nýtur vinsælda og það sama er að segja um Draugagönguna.  Opnun bæjarlistakonunnar Önnu Gunnarsdóttur á sýningu í Ketilhúsinu, þar sem hún fæst við stór þrívíddarverk úr ull, er beðið með eftirvæntingu og það sama gildir um opnun Listasafnsins á Akureyri á verkum listamannanna sem eru tilnefndir til Sjónlistaverðlaunanna árið 2008.  Vestur-Íslendingurinn Freya Olafson kemur frá Kanada til sýna gestum Akureyrarvöku video- og dansverkið New Icelander þar sem hún vinnur með minningu forfeðra okkar sem fóru vestur um haf í leit að betra lífi.  Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Leikfélag Akureyrar taka höndum saman og sýna á Marínu verkið Saga dátans eftir Igor Stravinsky en það var samið sem ádeila á græðgi og auðsöfnun. 

Opnun á ástarsafni

Síðasti hápunktur Akureyrarvöku er sjálft lokaatriðið þar sem saman fara afmælisstemmning á 146. ára afmæli Akureyrarbæjar og opnun á ástarsafni.  Lokaatriðið mun fela í sér stóra gómsæta afmælisköku sem upphafspunkt, fallegan karlmannssöng og siglingu, tónlist frá Kanada og einum vinsælasta trúbador landsins og opnun á ástarsafni Akureyringa. Að síðustu mun bæjarlistakonan Anna Richards bregða sér í líki furðufugls við Menningarhúsið Hof með aðstoð Brynhildar Kristinsdóttur og Ragnhildar Gísladóttur og verður framinn einstakur gjörningur á þaki Menningarhússins en það verður einmitt vígt á Akureyrarvöku á næsta ári og er vel við hæfi að enda lokaatriðið á þeim stað.

Nýjast