Hefðbundin dagskrá hefst í Lystigarðinum klukkan 13 með fánahyllingu, hátíðarávarp í flutningi Geirs Kristins Aðalsteinssonar oddvita L-listans, bænagjörð og blessun sem Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni við Glerárkirkju flytur og Kór Glerárkirkju syngur undir stjórn Valmars Väljaots. Klukkan 13.30 verður lagt af stað í skrúðgöngu sem Skátafélagið Klakkur og lögreglan leiða og endar hún í miðbænum.
Í miðbænum munu skátarnir koma upp hinu sívinsæla skátatívolíi þar sem hægt er að reyna sig við ýmsar þrautir. Einnig verða hjólabílar, hoppukastalar og fleira. Það verður dagskrá á sviði á Ráðhústorgi þar sem stíga á stokk Lúðrasveit Akureyrar, Karlakór Akureyrar-Geysir, Leikhópurinn Lotta með atriði úr Hans Klaufa, Marimbasveit Giljaskóla, atriði úr leikritinu Dýrin í Hálsaskógi og Hvanndalsbræður spila. Það er leikkonan Bryndís Ásmunsdóttir sem er kynnir. Dagskráin í miðbænum stendur yfir frá 14-17.
Klukkan 21 hefst dagskráin svo aftur á Ráðhðustorgi og munu þar stíga á svið hljómsveitin Buff, Leikhópurinn Lotta, akureyska hljómsveitin Sjálfsprottin spévísi, söngvarinn Geir Ólafsson tekur lagið og Hvanndalsbræður spila og syngja. Dagskráin nær svo hámarki um miðnætti þegar nýstúdentar frá Menntaskólanum á Akureyri marsera í gegnum miðbæinn.