Fimm umsóknir um stöðu skólastjóra Tónlistarskólans á Akureyri

Fimm umsóknir bárust um stöðu skólastjóra Tónlistarskólans á Akureyri en umsóknarfrestur rann út fyrir helgina. Í þessum hópi eru tveir skólastjórar, Eiríkur Stephensen skólastjóri Tónlistarskóla Eyjafjarðar og Hjörleifur Örn Jónsson skólastjóri í Berlín. Aðrir umsækjendur eru Daníel Arason tónlistarkennari á Eskifirði og Reyðarfirði, Herdís H. Oddsdóttir tónlistarkennari í Reykjavík og Vigdís Klara Aradóttir tónlistarkennari í Hafnarfirði. Núverandi skólastjóri Tónlistarskólans er Helgi Þ. Svavarsson. Tónlistarskólinn á Akureyri er einn af stærri tónlistarskólum landsins og þar er rekin umfangsmikil starfsemi. Nemendur í hefðbundnu hljóðfæra- og söngnámi eru um 470 og í skólanum starfa um 40 manns. Að auki þjónustar skólinn leik- og grunnskóla, þannig að fjármagnið sem fer í skólann nýtist um 1200 nemendum. Einnig er þar haldið úti  öflugu hljómsveitarstarfi. Tónlistarskólinn mun flytja í nýtt og glæsilegt húsnæði í Hofi, nýju menningarhúsi Akureyrarbæjar, haustið 2009 og við það mun aðstaða skólans batna til mikilla muna.

Nýjast