Fimm ár í dag frá því Slippurinn Akureyri hóf starfsemi

Í dag, mánudaginn 11. október, eru liðin fimm ár frá því Slippurinn Akureyri hóf starfsemi. Af því tilefni buðu forsvarsmenn fyrirtækisins starfsmönnum sínum til hádegisverðar. Fram kom í máli Antons Benjamínssonar framkvæmdastjóra Slippsins að þegar starfsemin hófst fyrir 5 árum hafi starfsmennirnir verið 45 en á þessum 5 árum hefur þeim fjölgað um 100 og eru nú 145.  

Slippurinn Akureyri ehf. gerði á sínum tíma samning við skiptastjóra þrotabús Slippstöðvarinnar um leigu á húsnæði, vélum og tækjum og yfirtók leigusamning Slippstöðvarinnar á upptökumannvirkjum á athafnasvæðinu, sem eru í eigu Hafnasamlags Norðurlands. Tveir fyrrum verkefnisstjórar Slippstöðvarinnar hafa verið í forsvari  félags, þeir Anton framkvæmdastjóri, og Sigtryggur Guðlaugs verkefnisstjóri, en auk þeirra eru hluthafar nokkrir einstaklingar og fyrirtæki.

Einnig voru mættir í hádegismat í dag þeir Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar, Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja og stjórnarmaður í Slippnum og Kristján Ásgeirsson fjármálastjóri Málningar og formaður stjórnar Slippsins Akureyri.

Nýjast