Ferðafólki fjölgaði í Grímsey um leið og veður batnaði

„Júní var erfiður, því er ekki að neita og þar skipti tíðarfarið mestu," segir Ragnhildur Hjaltadóttir í Grímsey um ferðamannastraum til eyjarinnar.  Það sem af er júlí hafa ferðamenn hins vegar streymt til eyjarinnar enda batnaði veðrið til muna þegar hann gekk í garð. Ragnhildur segir að útlendingar haldi sínu striki og láti veður ekki stöðva för sína, en Íslendingar ferðist meira eftir veðri.  

"Útlendingum finnst bara gaman að lenda í roki og rigningu, öðruvísi veðri en þeir eru vanir," segir Ragnhildur. Hún segir að nú í júlí hafi verið mun líflegra í eynni en í júní, „og ég hef á tilfinningunni að ferðamenn séu álíka margir ef ekki fleiri en í júlí í fyrra, þannig að þetta er bara ágætt," segir hún.   Flestir ferðalangar sem leggja leið sína í Grímsey staldra stutt við, rétt á meðan ferjan stoppar eða í fjórar klukkustundir og nýta tímann í að skoða sig um.  Ragnhildur segir að færst hafi í aukana að ferðamenn noti bæði land- og loftleiðina í ferðum sínum til Grímseyjar, fljúgi aðra leiðina og sigli hina.

Fuglalíf er mikið í Grímsey og segir Ragnhildur að nú sé mikið af lunda í eynni. „Við höfum aldrei séð jafn mikið af lunda og nú í ár og það er ánægjulegt," segir hún.  Fuglaáhugafólk leggi í auknum mæli leið sína út í Grímsey til að fylgjast með fjörugu fuglalífi.  Þá er menningarlífið í blóma, tónleikar voru haldnir um liðna helgi, Smári Vífilsson söngvari kom og söng fyrir eyjaskeggja og gesti þeirra og nýlega voru þeir félagar Jogvan og Friðrik Ómar með tónleika í Grímsey. Ragnhildur á von á að ferðafólk muni láta sjá sig í eynni um komandi verslunarmannahelgi og muni íbúar taka fagnandi á móti þeim.

Nýjast