„Við höfum stigið stórt skref með stofnun félagsins og þykir það mikil framför að slíkt félag sé til," segir hún. Næsta skref verður að kynna félagið og fá fleiri til liðs við það, þannig verði félagið enn öflugra og slagkraftur þess meiri. Snjólaug segir að um sé að ræða hagsmunafélag og sjónum beint að brýnum málum sem úrlausnar þurfa við og snúa að öldruðum á dvalarheimilum bæjarins.
„Við munum standa vörð um réttindi aldraðra, þeir hafa ekki haft talsmenn eða bakhjarla fram til þessa, en það er ekki vanþörf á því nú á þessum tímum," segir Snjólaug. „Það er frábært að stofnun þessa félags hefur orðið að veruleika og mörg spennandi verkefni framundan. Það er mikill styrkur fyrir aðstandendur að starfa í félagi sem þessu, við fáum stuðning hvert hjá öðru og höfum tækifæri til að bera saman bækur okkur við fólk sem er í sömu sporum."