„Umræður um fyrirhugaða lagningu Dalsbrautar og uppbyggingu Naustaskóla voru fyrirferðarmestar á fundinum," segir Bjarni Sigurðsson varaformaður hverfisnefndar Naustahverfis en aðalfundur ráðsins var haldinn nýverið. Gestir fundarins voru Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri, Oddur Helgi Halldórsson fomaður bæjarráðs, Inda Björk Gunnarsdóttir formaður félagsmálaráðs og Helgi Snæbjarnarson formaður skipulagsnefndar.
Bjarni segir að fundarmenn hafi fagnað þeim áformum bæjarstjórnar að bjóða út í vetur áfanga við lagningu Dalsbrautar og hefjast handa við gerð hennar með vorinu. Um er að ræða áfanga frá Miðhúsabraut og að Skógarlundi. Bjarni segir að fram hafi komið á fundinum að ætlunin væri að halda svo áfram með verkið og ljúka því á árinu 2012, þ.e. leiðinni frá Skógarlundi og út að Þingvallastræti.
Þá var ánægja fundarmanna síst minni þegar upplýst var að sá áfangi Naustaskóla sem eftir er að byggja yrði boðin út í vetur. Skólahald í Naustaskóla er nú fyrir nemendur upp í 8. bekk en nemendur í tveimur efstu bekkjum grunnskólans sækja sitt nám út fyrir hverfið. Gera mætti ráð fyrir að þröngt yrði í skólanum næsta vetur, en við það myndu menn sætta sig þar sem nýbygging væri í sjónmáli og ráðgert að taka hana í notkun haustið 2012.
Um 1.450 manns búa nú í Naustahverfi en í því fullbyggðu má gera ráð fyrir um 7.000 íbúum. „Þetta verður eitt af stærstu hverfum bæjarins þegar það verður fullbyggt," segir Bjarni og því skipti það sköpum fyrir áframhaldandi uppbyggingu að umferðartengingar við það séu góðar. „Þær verða að fá að þróast í eðlilegu framhaldi af öðrum hverfum bæjarins og vera í tengslum við þau en ekki einangrað úthverfi," segir hann. Því hafi fundarmönnum þótt ánægjulegt að heyra að til stæði að hefja framkvæmdir við lagningu Dalsbrautar.