Eydís og Sigrún Magna á lokatónleikum sumarsins

Þær stöllur Eydís Franzdóttir, óbóleikari, og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, orgelleikari, munu leika fyrir gesti á lokatónleikum Sumartónleika í Akureyrarkirkju, sunnudaginn 25. júlí kl. 17.00. Tónleikarnir munu hefjast með konsert fyrir óbó og strengjasveit eftir Händel og kemur þá orgelið í stað hljómsveitarinnar. Auk konsertsins munu hljóma íðilfagrir tónar frá barrokktímanum og einnig nýrri tónlist.

 

Óbóið var fundið upp um miðja 17. öld af tveimur hljóðfæraleikurum við frönsku hirðina. Í lok 17. aldar var óbóið aðal tréblásturshljóðfæri sinfóníuhljómsveita og, á eftir fiðlunum, helsta einleikshljóðfæri þess tíma. Eydís Franzdóttir óbóleikari lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1987 og stundaði framhaldsnám í London. Hún lék um skeið með samevrópsku hljómsveitinni Acadya, en var svo ráðin 1. óbóleikari tékknesku útvarpshljómsveitarinnar í Pilzen 1992 þar sem hún lék um tveggja ára skeið. Eydís hefur komið fram sem einleikari, með kammerhópum og hljómsveitum víða um Evrópu, Norður-Ameríku og á Íslandi. Hún hefur látið að sér kveða við tónleikahald landsins, er m.a. meðlimur í Caput-hópnum og skipuleggjandi 15:15 tónleikasyrpunnar í Norræna húsinu.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir nam fyrst orgelleik hjá Birni Steinari Sólbergssyni á Akureyri. Hún stundaði síðar kirkjutónlistarnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar, útskrifaðist með kantorspróf þaðan árið 2000 og einleiksáfanga frá sama skóla árið 2003. Sigrún stundar nú meistaranám við kirkjutónlistardeild Konunglega danska tónlistarháskólans í Kaupmannahöfn hjá prófessor Bine Bryndorf ásamt starfi sínu sem organisti við Akureyrarkirkju. Sigrún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis, bæði sem einleikari og í samleik, og einnig starfað með fjölda kóra.

Tónleikarnir í Akureyrarkirkju standa í klukkustund án hlés, aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Nýjast