Tillagan að breytingu á aðalskipulagi gerir m.a. ráð fyrir að flugvallarsvæðið stækki úr 102,8 hekturum í 162 hektara. Gert er ráð fyrir minniháttar stækkun á landfyllingum og breytingu á umferðartenginum við Eyjafjarðarbraut. Málið var til umfjöllunar á síðasta fundi skipulagsnefndar, sem frestaði afgreiðslu.
Fram kemur m.a. í umsögn Umhverfisstofnunar að mikilvægt sé að svæði sunnan flugbrautar verði ekki raskað frekar en orðið er. Þá sé framsetning skipulagsuppdráttar varðandi framtíð votlendissvæðis sunnan flugbrautar óljós. Rök vanti fyrir þörf þess að breyta landnotkun fyrir svæði sunnan flugbrautar og vesturbakka Eyjafjarðarár. Þá er í umsögn Umhverfisstofnunar gerð athugasemd við að flugvallarsvæðið sé stækkað að sveitarfélagsmörkum og að Eyjafjarðará. Jafnframt er bent á að Óshólmar Eyjafjarðarár eru á náttúruminjaskrá og skrá yfir alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði. Leirur í Eyjafirði votlendissvæði sunnan flugvallarins falli undir lög um náttúruvernd og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Náttúruminjasvæði sem gert er ráð fyrir að taka undir stækkun flugvallarsvæðisins sé mikilvægt fyrir fugla og ætti því að forðast frekari framkvæmdir á því svæði.