Ekki til ákvæði fyrir undirverktaka sem vinna hjá Akureyrarbæ

Í innkaupareglum Akureyrarbæjar eru m.a. ákvæði um að verktakar sem vinna hjá Akureyrarbæ skuli vera í skilum með launatengd gjöld og á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið fylgst með þessu af hálfu bæjarins. Ekki eru í innkaupareglunum ákvæði af þessu tagi um undirverktaka og Akureyrarbær því ekki í stöðu til beinna afskipta af þeim. Innkaupareglunum er m.a. ætlað að stuðla að samkeppni á markaði varðandi sölu á vörum, verkum og þjónustu til Akureyrarbæjar. Bæjarráð hvetur þá verktaka sem vinna á vegum bæjarins til að sjá til þess að undirverktakar þeirra virði reglur vinnumarkaðarins og greiði tilskilin gjöld vegna starfsmanna sinna til viðkomandi stéttarfélags. Þessi bókun bæjarráðs Akureyrar frá því í morgun er til komin í kjölfar erindis frá Birni Snæbjörnssyni formanni Einingar-Iðju, varðandi fyrirspurn til ráðsins um úttekt á/eftirlit með undirverktökum sem vinna við opinberar framkvæmdir á vegum bæjarins. Bæjarráð fól bæjarlögmanni og hagsýslustjóra að hefja undirbúning að endurskoðun innkaupareglna Akureyrarbæjar.
Baldvin H. Sigurðsson sat hjá við afgreiðslu en lagði fram bókun svohljóðandi:  "Ég fer þess á leit við bæjarráð Akureyrar að ráðið krefjist þess af verktökum og undirverktökum á þeirra vegum sem starfa fyrir bæjarfélagið, að þeir hlíti reglum vinnumarkaðarins um lög og lágmarkskjör starfsmanna sem starfa við framkvæmdir sem unnar eru fyrir Akureyrarkaupstað."

Nýjast