Ekki talin þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna framkvæmda í Krossanesi

Meirihluti skipulagsnefndar Akureyrar telur að ekki sé þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra framkvæmda Becromal í Krossanesi, þar sem ítalska fyrirtækið ætlar að byggja upp aflþynnuverksmiðju. Jóhannes Árnason fulltrúi VG greiddi atkvæði gegn þeirri afgreiðslu nefndarinnar. "Hér er um að ræða langtíma stefnumótun um starfsemi sem getur haft umtalsverð áhrif á umhverfið. Ég tel rétt að formlegt mat á umhverfisáhrifum fari fram," segir í bókun Jóhannesar. Skipulagsnefnd barst erindi þar sem Sigurður Ásbjörnsson f.h. Skipulagsstofnunar óskaði eftir umsögn Akureyrarbæjar um hvort og á hvaða forsendum fyrirhuguð framkvæmd Becoromal í Krossanesi skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Fram kemur í skýrslu Línuhönnunar að helstu þættir framkvæmdarinnar sem taldir eru geta valdið áhrifum séu meðhöndlun úrgangs, frárennsli, kælivatnsnotkun og loftmengun. Færð eru rök fyrir því að umhverfisáhrif þessara þátta séu lágmörkuð og neikvæð áhrif geti ekki talist mikil. Meirihluti skipulagsnefndar gerir ekki athugasemdir við niðurstöður skýrslu Línuhönnunar um að heildaráhrif þessara framkvæmda séu lágmörkuð og neikvæð áhrif geti ekki talist mikil og því sé ekki að þörf á mati á umhverfisáhrifum vegna þeirra.

Nýjast