Ekki er enn búið að tryggja rekstur göngudeildar SÁÁ

Bæjarráð Akureyrar hefur samþykkt að leggja 8,3 milljónir króna til reksturs göngudeildar SÁÁ á Akureyri á þessu ári og því næsta, 3, 3 milljónir í ár og 5 milljónir á næsta ári. „Þetta er gert í ljósi aðstæðna en bæjarráð lítur svo á að rekstur SÁÁ eigi skilyrðislaust að vera fjármagnaður af fjárlögum," segir í bókun bæjarráðs vegna samþykktarinnar.  

Þar er einnig tekið fram að fjármunir séu lagðir fram að því tilskyldu að rekstur göngudeildarinnar verði með sambærilegum hætti og verið hefur. Anna Hildur Guðmundsdóttir dagskrárstjóri á göngudeild SÁÁ á Akureyri segir að þó svo að framlag Akureyrarbæjar komi til sé ekki þar með sagt að búið sé að tryggja reksturinn.  Enn vanti álíka háa  upphæð og bærinn leggi til.  Óskað hefur verið eftir því að nágrannasveitarfélög leggi einnig fram fjármuni svo ekki komi til lokunar, en ekki er að fullu ljóst hvernig málið verður afgreitt í hverju þeirra fyrir sig.  Eyjafjarðarsveit hefur samþykkt að greiða 100 þúsund krónur í ár og 150 þúsund krónur á því næsta, sum sveitarfélög hafa frestað afgreiðslu málsins, önnur ekki tekið erindið fyrir.

„Eins og staðan er núna er ekkert sem bendir til annars en að við munu loka hér 1. júní næstkomandi," segir Anna Hildur. „Það er miður, því ég er sannfærð um að ef við lokum núna verður ekki opnað aftur."  Hún segir að viðbrögð skjólstæðinga og aðstandenda þeirra séu hörð og menn vilji fyrir alla muni að starfsemin verði áfram norðan heiða.  „Vandinn hverfur ekki þó við lokum, hann flyst til og eflaust verður meiri ásókn hjá t.d. félagsþjónustu og á geðdeild," segir hún. Anna Hildur bendir á að tíminn sé naumur, örfáar vikur í lokun, en hún kveðst þó bjartsýn á að lausn finnst, greinilegt sé að menn séu tilbúnir að berjast. „Nú erum við að berjast fyrir lífi okkar og vonum að það takist, nú þurfum við á hjálp að halda."

Nýjast