Einelti og ungt fólk, netið og ábyrgð samfélagsins

Einelti er ekki einkamál þeirra sem í því lenda, heldur samfélagslegt vandamál. Einelti er ofbeldi sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir einstaklinga og fyrir samfélagið í heild. Nauðsynlegt er að taka upp umræðu um einelti á opinberum vettvangi og vekja athygli fólks á mikilvægi þess að vera vel á verði.  

Heimili og skóli - landssamtök foreldra, Liðsmenn Jerico, Olweusaráætlunin og Ungmennaráð SAFT í samstarfi við Símann, Velferðarráðuneytin þrjú, mennta-  og menningarmálaráðuneytið, félags- og tryggingarmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og styrktaraðila hefja nú eineltisátak á landsvísu á 11 stöðum á landinu. Fundað verður í Árborg, á Ísafirði, í Reykjanesbæ, á Sauðárkróki, Akureyri, Grundarfirði, Fljótsdalshéraði, í Borgarbyggð, Vestmannaeyjum, á Höfn í Hornafirði og í Reykjavík tímabilið 14. september til 2. nóvember 2010.

Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mun opna fyrsta borgarafundinn í Árborg í kvöld og ávarpa fundargesti. Umfjöllunarefni borgara- og fræðslufundanna er einelti og ungt fólk, netið og ábyrgð samfélagsins. Leikhópar unglinga á þessum 11 stöðum munu undir handleiðslu leiklistarkennara eða leiðbeinanda setja upp leiksýninguna „Þú ert það sem þú gerir á netinu" eftir Elítuna og Rannveigu Þorkelsdóttur, og sýna í skóla á jafningjafræðslufundi á hverjum stað.

Um kvöldið verða opnir borgarafundir þar sem leikritið verður endurflutt og fyrirlesarar frá Heimili og skóla, Liðsmönnum Jerico og frá Olweusaráætluninni munu flytja erindi um einelti út frá sjónarhóli foreldra og þolenda auk þess sem rætt verður um þau úrræði sem í boði eru. Umræður verða að loknum framsöguerindum. Fundarstjórar verða bæjarstjórar eða fræðslustjórar í viðkomandi sveitarfélagi. Staðbundin dagskrá verður auglýst nánar og eru allir velkomnir. Ætlunin er að láta verkin tala.

Stöðvum einelti strax - borgarafundirnir eru hluti af áætlun þriggja ráðuneyta sem birtist í Greinargerð um mögulegar aðgerðir gegn einelti í skólum og vinnustöðum: http://www.menntamalaraduneyti.is/media/MRN-pdf/Einelti_-_Greinargerd_24_juni_2010_-_lokaskjal.pdf Fundirnir og leiksýningarnar verða viðkomandi skóla og bæjarfélagi algerlega að kostnaðarlausu.

Nýjast