Eðlilegt að foreldrar kynni sér málin

„Ég ásamt Samtaka, (samtökum foreldrafélaga á Akureyri) vorum í raun ekkert að vara við þessari skemmtun heldur bara að benda foreldrum á að skoða hlutina í kringum þetta og það er langur vegur frá því að ætlunin með þessu hafi verið að gera þessum mönnum (N3) grikk," segir Gréta Kristjánsdóttir forvarnarfulltrúi Akureyrarbæjar.  

Í Vikudegi í þar síðustu viku skrifaði Pétur Guðjónsson, sem er hluti af N3 hópnum og meðferðarfulltrúi á unglingaheimili, grein í blaðið (sjá aðsendar greinar hér að neðan) þar sem hann gagnrýndi Grétu m.a. fyrir að vara við skemmtanahaldi sem hann, ásamt N3 og Óla Geir, héldu í Sjallanum fyrir grunnskólanemendur í 8. bekk og eldri, á dögunum, í tilefni prófloka. Gréta, ásamt Samtaka, sendu bréf til foreldra grunnskólanema í bænum fyrir skemmtunina, þar sem bent er á ýmsa vafasama hluti sem Splash-hópurinn hefur staðið fyrir en hluti hans var í samstarfi við N3 hópinn umrætt ball. Í ljós hafi svo komið að einhverjir foreldrar töldu að um skólaball væri að ræða, sem var ekki. Einnig var tilgangurinn með bréfinu að upplýsa foreldra um 14+ dansleik sem Splash-hópurinn einn og sér hefur auglýst í Sjallanum, þann 16.júní, en þá eru skólar komnir í frí og ekki eins auðvelt að ná til foreldra.

Einungis verið að upplýsa

„Ég skrifaði þetta bréf og geng við því en ég er ósátt við margt sem kemur fram í greininni hans Péturs. Þar eru hlutir sem ég á að hafa sagt og birtast í greininni, sem ég kannast ekki við," segir Gréta. Reynt var að ná saman fundi með Samtökum foreldrafélaga og N3 þar sem fara átti yfir málin. Pétur hafi hins vegar afboðað þann fund. Gréta segist ekki vísvitandi hafa ætlað að skemma fyrir skemmtanahaldinu í Sjallanum, heldur hafi ætlunin einungis verið að upplýsa foreldra um hvað Splash-hópurinn stendur fyrir.

„Ég er alls ekkert að hallmæla N3 hópnum sem slíkum í þessu bréfi, heldur er bara verið að benda foreldrum á að skoða umgjörðina í kringum þessi böll. Mér finnst alveg eðlilegt að foreldrar kynni sér málin þegar barnið þeirra er að fara að skemmta sér í Sjallanum. Það var tilgangurinn með þessu bréfi og ég vil að sjálfsögðu starfa með öllum og um leið tryggja réttindi barna til uppbyggilegra skemmtana. Það er alltaf betra," segir Gréta.

Nýjast