Dreymdi um að fyrstu jólin á Akureyri yrðu hvít

Helga var ráðin til Glerárkirkju í lok sumars.
Helga var ráðin til Glerárkirkju í lok sumars.

Helga Bragadóttir var í haust ráðin prestur í Glerárkirkju. Sr. Helga, sem ólst upp fyrstu tíu árin á Siglufirði og flutti svo til Hafnarfjarðar, segist spennt fyrir að halda jólin aftur fyrir norðan. 

Strákurinn hennar Helgu

Helga rifjar upp þegar hún var síðast norðan heiða yfir jólahátíðina, þá tíu ára gömul.

„Það sem var eftirminnilegast við jólin á Siglufirði, er bara eins og þið þekkið hér, ekkert smá mikið af snjó. Göturnar voru mokaðar þannig að skaflarnir voru bara eins og fjöll, miklu stærri en maður sjálfur. Það setti svo skemmtilegan svip á bæinn, og þegar jólaljósin voru komin og myrkrið, samt var svo bjart því það var svo mikill snjór. Svo þegar kom óveður og rafmagnið sló út þá kveiktu mamma og pabbi á kertum. Það er mjög eftirminnilegt.“ 

Þegar undirritaður ræddi við Helgu í lok nóvember, var um 10 stiga hiti og enginn snjór í kortunum. „Það eru allir hérna að tala um hvað sé að frétta og hvar allur snjórinn sé í ár,“ segir Helga og hlær. „En ég á mér leynidraum, þar sem ég er komin aftur norður, að ég fái svona Siglufjarðarjól og allt verði á kafi í snjó og maður sé bara fastur inni. Ég held ennþá í hann, það er ekki of seint.“

Jól í nýju starfi, á nýjum stað

Helga flutti til Akureyrar með konu sinni og barni í ágúst á þessu ári þegar hún hóf störf í Glerárkirkju. Henni líkar dvölin á Akureyri afar vel hingað til og er spennt fyrir að halda jólin á nýjum stað.

„Við erum búin að græða svo mikinn tíma síðan við fluttum hingað, það er ótrúlegt. Bara það að sækja strákinn úr leikskólanum og fara með hann í íþróttir og allt svoleiðis, er allt annað líf. Ég bjóst ekki við að ég myndi aðlagast bænum svona hratt og að mér myndi líða svona vel hérna.“

-Jólahátíðin er annasamur tími hjá prestum og starfsfólki kirkjunnar. Þetta eru fyrstu jól Helgu sem prestur.Undirritaður spurði Helgu hvort það yrði brjálað að gera yfir jólahátíðina.

„Ég hef náttúrulega ekki upplifað þetta áður. En þetta leggst mjög vel í mig. Það hefur gengið ofsalega vel hingað til. Þetta er líka sérstaklega hátíðlegt í ár því Glerárkirkja á 30 ára afmæli.“

Messan á aðfangadag er einn af stærstu viðburðum ársins hjá kirkjunni en Helga er ekki með hana þetta árið. „Mér er svolítið létt að vera ekki með hana fyrstu jólin mín sem prestur, ég viðurkenni það,” segir Helga og hlær. „Ég verð með messu á jóladag og nýársdag í staðinn. Svo er alltaf nóg að gera við hjálparstarfið okkar. Því miður eru svolítið margir sem þurfa að leita sér aðstoðar um jólin.“

Faðir Helgu er einnig prestur og því kannast hún við annríki presta um hátíðirnar. „Ég man að mér fannst stundum leitt þegar pabbi þurfti að fara aftur um kvöldið þegar það var miðnæturmessa. Við vorum stundum kannski ekki alveg búin að klára pakkana, það var stundum pínu leiðinlegt. En það er ýmislegt sem prestar þurfa að undirbúa fyrir jólin, eins og að semja predikun og æfa tónið sem er sérstakt fyrir jólin. Já, ég hugsa að þetta sé pottþétt annasamasti tíminn, ásamt páskum.“

Lord of the Rings um jólin á hverju ári

„Ég var mikið jólabarn í æsku og mér finnst ég svolítið vera að upplifa það aftur núna í gegnum strákinn. Hann er fimm ára og allt þetta eins og að setja skóinn út í glugga og svona er alveg ótrúlega gaman. Ég elska þennan tíma,“ segir Helga.

Þegar hún var spurð hvort hún héldi fast í einhverjar jólahefðir kom tvennt upp í hugann.

„Eiginlega það eina sem ég og konan mín erum ósammála um er hvenær á að skreyta jólatréð. Ég vil alls ekki gera það fyrr en 22. desember því þannig var það hjá mér þegar ég ólst upp. Hún er svo „líbo“, hún vill örugglega bara setja það upp á morgun. En ég rígheld í þessa hefð. Svo auðvitað Lord of the Rings þríleikurinn, og þá bara extended version. Ég get ekki stuttu útgáfuna lengur. Konan mín þarf pásu með nokkurra ára millibili, hún getur ekki horft á hverju ári en ég tek hann á hverju ári.“

Þegar Helga er spurð um eftirminnilegustu jólagjöfina hikar hún ekki.

„Eftirminnilegasta jólagjöfin er Playstation 1, jólin 2000 þegar ég var níu ára. Ég á hana meira að segja enn og hún virkar ennþá, það er bara vesen að finna millistykki fyrir sjónvarpið. Svo fóru þau jólin bara í Playstation, systir mín kom og fékk að prufa líka þannig að maður var ekki alveg einn. Það eru góðar minningar.“

Mikilvægt að staldra við 

Þó að jólin séu besti tími ársins fyrir marga er það ekki raunin fyrir alla. Margir glíma við mikla erfiðleika um jólin og aðrir eru undir afar miklu álagi á þessum annasama tíma. Helga segir að það sé því miður engin töfralausn til en mikilvægt sé að staldra reglulega við og njóta augnabliksins.

„Það sem hefur hjálpað mér stundum, og það kemur ekki einu sinni frá mér heldur Brené Brown, er að stoppa reglulega og vera þakklát fyrir augnablikið. Þetta á alveg eins við í hversdagsleikanum, þegar dagurinn hefur verið langur og það er einhver pirringur í manni. Að stoppa og staldra við og hugsa, ég er hér og fjölskyldan mín er hér. Reyna þannig að temja sér að njóta augnabliksins.“

Að lokum er Helga spurð um hvað nýtt ár beri í skauti sér fyrir hana.

„Mig langar að læra aftur á skíði. Ég var mikið á skíðum þegar ég var lítil en þegar ég flutti suður þá datt það upp fyrir. Enn og aftur, þá vonast ég til þess að fá snjó,“ segir Helga og brosir. „Svo er það bara að halda áfram að vinna í kirkjunni, skipuleggja og undirbúa nýtt ár sem ég er rosalega ánægð með. Ég elska að vinna hér og ég elska Akureyri,“ segir Helga með ýktum norðlenskum hreim og skellihlær.

HB

Greinin birtist fyrst í jólablaði Vikublaðsins

Jól á skíðum


Athugasemdir

Nýjast