Dragan hættur sem þjálfari Þórs/KA

Dragan Kristinn Stojanovic er hættur sem þjálfari meistaraflokks Þórs/KA í knattspyrnu. Dragan tilkynnti leikmönnum liðsins tíðindin í gær. Ósætti hefur verið á milli Dragans og kvennaráðs Þórs sem virðist megin ástæða brotthvarfs þjálfarans. „Þetta kom svolítið óvænt upp á. Það hafa verið vandamál milli mín og kvennaráðs Þórs og það virðist hafa valdið þessu,” segir Dragan í samtali við Vikudag. Unnsteinn Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs, segir það hafa verið ákvörðun stjórnarinnar að láta Dragan fara, ósætti hafa verið á milli þjálfara, leikmanna og kvennaráðs.

„Það var löngu ákveðið að hann myndi hætta með liðið eftir sumarið þegar samningur hans kláraðist. Hins vegar var ákveðið að láta hann ekki klára tímabilið útaf þessu sem undan var. Svo erum við þegar farnir að hugsa til lengri tíma, ekki bara næsta mánuð, og það var að trufla vinnuna fyrir framhaldið að hafa hann áfram," segir Unnsteinn. Hann segir ekki ljóst hver muni taki við starfinu af Dragan en það muni ráðast um helgina hver stýri liðinu út leiktíðina. Siguróli „Moli” Kristjánsson mun áfram gegna stöðu aðstoðarþjálfara liðsins. Þór/KA er í harðri baráttu um 2. sætið í Pepsi-deildinni, þegar fjórar umferðir eru eftir.

Dragan tók við Þór/KA haustið 2006 og hefur náð frábærum árangri með liðið. Aðspurður segist Dragan ekki vita hvað taki við hjá sér en hann útilokar ekki að taka við þjálfarastarfi hjá öðru félagi í Pepsi-deildinni.

Nýjast