Daníel Einarsson samdi við Akureyri Handboltafélag- Sveinbjörn hugsanlega á leiðinni

Daníel Einarsson skrifaði í dag undir eins árs samning við Akureyri Handboltafélag. Daníel, sem er 22 ára, kemur frá Stjörnunni og er örvhentur hornamaður. Hann skoraði 65 mörk í N1-deildinni með Stjörnunni sl. vetur. Daníel er annar leikmaðurinn sem bætist í hóp Akureyrar fyrir komandi tímabil, en Bjarni Fritzon gekk nýverið til liðsins frá FH.

Þá mun Akureyri einnig vera á höttunum á eftir Sveinbirni Péturssyni markverði HK og fyrrum leikmanni norðanmanna. Samkvæmt heimildum Vikudags eru meiri líkur en minni að af félagsskiptunum verði. Akureyri hefur boðið tvisvar í Sveinbjörn en báðum tilboðunum verið hafnað af HK. Forsvarsmenn Akureyrar eru þó bjartsýnir á að Sveinbjörn gangi til liðs við félagið fyrir haustið. 

Þá er enn óvissa með hvort Hafþór Einarsson markvörður leiki með liðinu í vetur.






Nýjast