Maður var dæmdur í 10 mánaða fangelsi á dögunum í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir margvísleg og fjölmörg brot á hegningarlögum. Meðal þess sem maðurinn er ákærður fyrir er innbrot í verkstæði aðfaranótt þriðjudagsins 1. desember sl., þar sem hinn dæmdi stal meðal annars ýmsum verkfærum, punghlíf, axlarböndum og bílaboddý fyrir leikfangabíla. Einnig var hann dæmdur fyrir líkamsáras sem átti sér stað fyrir utan Nætursöluna á Akureyri þann 7. nóvember sl.
Veitti hann þar öðrum manni hnefahögg og skallaði í andlitið, með þeim afleiðingum að fjórar tennur brotnuðu í fórnarlambinu. Þá er einnig sá hinn sami ákærður fyrir innbrot í Fjölsmiðjuna tvívegis, þar sem hann stal m.a. átta þúsund krónum, ótilgreindu magni af gosi og bónvél. Einnig er maðurinn ákærður fyrir margvísleg eignarspjöll og aðra þjófnaði og innbrot.