"Þakmálið" í lausu lofti
Enn er óvíst hvort Íþróttafélaginu Þór á Akureyri verði skylt að setja þak yfir stúkuna á Þórsvelli. Eins og Vikudagur greindi frá fyrr í sumar skrifaði KSÍ bréf til Þórs þar sem óskað var eftir áætlun um að byggja þak yfir áhorfendastúkuna á Þórsvellinum. Að öðrum kosti verður völlurinn ólöglegur næsta sumar. Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, vildi lítið tjá sig um gang mála við Vikudag.
Það er ekkert ákveðið í þessum efnum, við munum taka málið upp í haust. Þangað til er lítið um þetta að segja, segir Þórir. KSÍ veitti fyrr á þessu ári heimild til að leika á Þórsvelllinum í sumar að gefnu því skilyrði að framkvæmdaáætlun um þak yfir stúkuna fyrir keppnistímabilið á næsta ári myndi liggja fyrir í sumar. Akureyrarbær mun ekki veita fjárveitingu til verkefnisins en kostnaðurinn við að reisa þak getur verið allt að hundrað millj. króna.