Hólar verði akademía friðar og framfara
Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst flutti hátíðarræðu á Hólahátíð í gær, en haldið var upp á 250 ára afmæli Hóladómirkju. Hann sagði að Hólastaður gegni nú nýju hlutverki, bæðin innan kirkjunnar og menntakerfisins. Á Hólastað þurfi bæði að rækta mikilvægt hlutverk í íslenskri menningu, trúarlífi og sögu og eins að leggja hönd á plóg á þremur vaxtarsviðum atvinnulífsins, hestamennsku og tengdri starfsemi, fiskeldi og ferðamennsku.
Væri það ekki göfug hugsjón fyrir framtíðina að Hólar verði eins konar akademía friðar og framfara? Og eflist ekki bara sem íslensk menntastofnun heldur hasli sér völl á alþjóðlegum vettvangi. Og standi fyrir rannsóknum á þýðingu og mótun fjölmenningarlegs samfélags á Íslandi og taki auk þess ríkan þátt í menntun og eflingu þekkingar fyrir atvinnulíf landsbyggðarinnar. Ég tel að það þurfi að tengja sterkt saman boðskap kristinnar trúar og framfarir og velgengni í atvinnulífi. Mikið er nú fjallað um nauðsyn á bættu siðferði í atvinnulífinu en það vantar að byggja þá umfjöllun á hinum trúarlega grunni kristninnar. Á Hólum getur starfsemi kirkjunnar og skólans eflst saman og staðurinn öðlast nýja frægð víða um heim, sagði Vilhjálmur Egilsson í ræðu sinni á Hólahátíð.