Agnes Ársælsdóttir sigurvegari í UNG SKÁLD AK
Ljóðið Æskuþrá eftir Agnesi Ársælsdóttur sigraði í ritgerðarsamkeppninni UNG SKÁLD AK 2013, úrslit voru kynnt í gær. Tilgangurinn með keppninni er að hvetja ungt fólk til skrifta og að skapa ungskáldum á aldrinum 16-25 ára vettvang fyrir verk sín en alls bárust 39 verk í samkeppnina. Dómnefnd ákvað að deila þriðja og fjórða sætinu milli þeirra Borgnýjar Finnsdóttur fyrir smásöguna Sársaukinn og Emblu Orradóttur fyrir ljóðið Dyr. Kristófer Páll Viðarsson varð í öðru sæti fyrir smásöguna Gæs.
Ævintýraþrá
Keyrum fram af klettunum!
Segir konan sem hræðist ekki neitt.
Maðurinn sem hún elskar situr undir stýri
og starir tómum augum fram á veginn.
--
Keyrum fram af klettunum,
kljúfum hörund hafsins.
Svömlum saman í eilífð þess.
Syndum okkar gleymum.
Þreyttum þrám ég sökkva skal,
svala gömlum þorsta.
Leggjumst dalinn djúpa í,
sofum dúrinn langa.
--
Maðurinn glottir og gefur í,
konan gólar áfram:
--
Keyrum fram af klettunum,
kaffærum okkar vonum.
Brimið dæmir ei dauða menn,
drekkir aðeins gráti
Vilt' ekki vagga með öldunum,
af salti fylla vit?
Ó, hvað það verður yndislegt
að finna loksins til!
--
Nú nálgast þau óðar sylluna,
maðurinn er á nálum.
Enn þá kyrjar konan hátt.
--
Keyrum fram af klettunum,
klárum lífsins leiða.
Dagsins amstur úr sögu er,
stritum ekki lengur.
Þorum saman þú og ég,
þankar okkar hverfa.
Djúpan drögum andann er
dagar allir teljast.
--
Þá er komið að því.
Æðar mannsins þenjast út.
Hann hikar augnablik á brúninni
en konan sönglar hærra.
--
Keyrum fram af klettunum!
Eða nei annars,
er ekki nýr criminal minds á rúv í kvöld?