93. þáttur 15. ágúst 2013
Mállýskur
Af máli fólks, sem borið er og barnfætt í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, má með nokkurri vissu ráða, hvaðan það er. Orð þess, orðanotkun - og ekki síst framburður og hrynjandi í máli - gefa vísbendingu um fæðingasveit þess. Á Íslandi er hins vegar ekki auðvelt að segja til um, hvaðan fólk það kemur, sem borið er hér og barnfætt, enda mállýskur, þ.e.a.s. staðbundin málfarseinkenni, með öðrum hætti á Íslandi en í nágrannalöndunum.
Engu að síður er af framburði Íslendinga unnt að geta sér til um hvaðan fólk kemur. Ef málþegi er linmæltur og hefur ókringdan /hv/ framburð, segir t.a.m. /gadan varþ Xít av snjó/, er sennilegt að um Árnesing eða Rangæing sé að ræða. Ef málþegi er aftur á móti linmæltur og hefur /kv/ framburð - og segir: /gadan varþ kvít av snjó/, er líklegt að um Norðlending eða Vestlending sé að ræða. Ef hlutaðeigandi er harðmæltur og notar /kv/ framburð - segir: /gatan varþ kvít av snjó/, er ekki ósennilegt, að á ferðinni sé Eyfirðingur eða Þingeyingur.
Talað hefur verið um ferns konar mállýskur á Íslandi: austfirsku, norðlensku, sunnlensku og vestfirsku. Það sem helst var talið einkenna mál okkar Austfirðinga, var flámælið - eða hljóðvillan, eins og kallað var, þegar fólk sagði /spela á spel/, þar sem annars staðar á landinu var talað um /spila á spil/. Flestir Austfirðingar voru auk þess linmæltir - sögðu /gada/ - og allmargir höfðu kringdan /hv/ framburð - sögðu /hvítur/. Þá hafa lærðir hljóðfræðingar talið sig finna hrynjandi í máli Austfirðinga sem minni á det norske tonelaget - syngjandina sem einkennir margar norskar mállýskur.
Norðlensku einkennir einkum og sér í lagi harðmælið: /gata/ - og raddaður framburður /meNNtun/. Til gamans má geta þess að margir telja hljómfall í máli Ólafsfirðinga sé nokkuð sérstakt þegar þeir hækka hljómfall í lok setninga - skvetta upp halanum á setningu, eins og ónefndur Akureyringurinn lýsti þessum framburði. Þá segja Svarfdælingar - og jafnvel Suður Þingeyingar - /kriNG-la/ kringla og /eNGland/ England.
Höfuðeinkenni sunnlensku var linmæli - /gada/ - og óraddaður framburður: /meHndun/ menntun. Sumir Sunnlendingar höfðu svo í máli sínu ókringdan /hv/ framburð, eins og áður var nefnt og sögðu: /gadan varþ Xít av snjó/.
Það sem einkum var talið einkenna vestfirsku, var einhljóðsframburður á undan ng og nk. Kannast margir við vestfirsku orðaþuluna: Það er lAngur gAngur fyrir svAnga MAnga að bera þAng í fAngi fram á LAngatAnga. Vestfirðingar voru auk þess linmæltir. Þá má enn þekkja fólk að vestan á því að það leggur áherslu á forsetningar eins og í setningunni: Hann tók utan 'um hana. Athugull lesandi getur því ráðið nokkuð í uppruna mörlandans.
Málfarsráðgjöf: Betra er að segja: hafa áhuga á - en að segja: hafa áhuga fyrir.
Tryggvi Gíslason