„Við hjá L-listanum fundum fyrir því í aðdraganda kosninga að mikil þörf er á því að brúa bilið á milli fyrirtækjanna í bænum og bæjaryfirvalda. Þetta starf er liður í þessu og kemur vonandi til með að efla hér atvinnulífið. Eitt af helstu hlutverkum verkefnisstjórans mun snúast um að vera í nánum tengslum við fyrirtækin í bænum og alla þá aðila sem hafa með atvinnumál að gera, Atvinnuþróunarfélagið, Vinnumálastofnun og fleiri."
Geir Kristinn segir að L-listinn leggi mikla áherslu á atvinnumálin í bænum sem undirstöðu fyrir velferð allra bæjarbúa og að ráðning þessa starfsmanns sé liður í að efla atvinnulífið á svæðinu. L-listinn hafi sett á laggirnar þverpólitískan starfshóp um atvinnumál til að fá sýn allra flokka inn í stefnumótunina í þessum málaflokki. Þá segir Geir Kristinn að hann og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri muni á komandi mánuðum og árum heimsækja fyrirtæki bæjarins með reglulegu millibili til að vera í góðum tengslum við atvinnurekendur í bænum.