Brúa þarf bilið á milli fyrirtækja og bæjaryfirvalda

Akureyrarbær hefur auglýst stöðu verkefnisstjóra atvinnumála lausa til umsóknar. Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar og formaður starfshóps um atvinnumál, segist finna fyrir gríðarlegum áhuga og að fjöldi fólks hafi sett sig í samband við sig vegna starfsins.  

„Við hjá L-listanum fundum fyrir því í aðdraganda kosninga að mikil þörf er á því að brúa bilið á milli fyrirtækjanna í bænum og bæjaryfirvalda.  Þetta starf er liður í þessu og kemur vonandi til með að efla hér atvinnulífið. Eitt af helstu hlutverkum verkefnisstjórans mun snúast um að vera í nánum tengslum við fyrirtækin í bænum og alla þá aðila sem hafa með atvinnumál að gera, Atvinnuþróunarfélagið, Vinnumálastofnun og fleiri."

Geir Kristinn segir að L-listinn leggi mikla áherslu á atvinnumálin í bænum sem undirstöðu fyrir velferð allra bæjarbúa og að ráðning þessa starfsmanns sé liður í að efla atvinnulífið á svæðinu. L-listinn hafi sett á laggirnar þverpólitískan starfshóp um atvinnumál til að fá sýn allra flokka inn í stefnumótunina í þessum málaflokki. Þá segir Geir Kristinn að hann og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri muni á komandi mánuðum og árum heimsækja fyrirtæki bæjarins með reglulegu millibili til að vera í góðum tengslum við atvinnurekendur í bænum.

Nýjast