12. nóvember, 2007 - 14:32
Fréttir
Brimnes RE, frystitogari Brims, kom til Akureyrar sl. nótt með um 500 tonn af frystum afurðum og er aflaverðmætið um 80 milljónir króna. Að sögn Karls Más Einarssonar útgerðarstjóra, var togarinn á veiðum í rússnesku lögsögunni og er þorskur uppistaða aflans.Veiðiferðin stóð yfir í tæpa 40 daga. Aflinn var heilfrystur með haus um borð en stærstur hluti hans verður þíddur upp og unnin í landvinnslu ÚA á Akureyri. Hluti af afla Brims var einnig þíddur upp til vinnslu hjá ÚA eftir löndun á Akureyri nýlega. Hér er um tilraunaverkefni að ræða en ef vel tekst til er hér hugsanlega komin ný vinnslustækni, sem gæti þýtt að frystitogarar fari almennt að koma með afla til vinnslu í landi. Aðspurður um hvernig til hafi tekist sagði Karl Már að framfarir hefðu orðið og að þessi vinnsluaðferð væri á réttri leið.