Breskir sjómenn í slagsmálum á Akureyri

Sjómenn af breskum togara sem kom til Akureyrar í gærmorgun vegna bilunar, þustu frá borði, fóru beint í ríkið og slógu svo upp gleðskap í miðbænum. Brátt skarst í odda með skipverjunum og slógust þeir nokkuð heiftarlega við veitingastaðinn Plaza í Geislagötu.  

Uppákoman endaði með því að lögreglan skarst í leikinn, handtók fimm skipverja og stakk þeim í steininn en einnig kom sjúkrabíll á staðinn. Skipverjarnir sem handteknir voru máttu dúsa í steininum fram undir miðnætti að skipstjórinn hringdi á stöðina og bað um að mannskapurinn yrði látinn laus, þar sem hann væri að leggja úr höfn. Var mesti móðurinn runninn af mönnunum þegar togarinn lagði úr höfn á ný.

Nýjast