Börnum fjölgar á leikskólum Akureyrar

Það stefnir í að barnafjöldi í leikskólum Akureyrar verði 1085 börn, sem er fjölgun um 21 barn frá árinu áður. Möguleiki er á að bæta við nokkrum eldri börnum þar sem nauðsynlegt er að geta brugðist við ef fjölgun verður í bæjarfélaginu á haustmánuðum. Alls voru 255 börn í árgangi 2004 sem hættu í leikskóla, sumar eða nú í haust.  

Þetta kemur fram í bókun frá síðasta fundi skólanefndar. Búið er að bjóða foreldrum allra barna sem fædd eru 2008 og fyrr að innrita börn sín í leikskóla og hafa langflestir þegið það boð. Út af standa 5 umsóknir, þar sem foreldrar þeirra barna óska eftir að bíða með innritun þar sem ekki var hægt að bjóða þeim þá skóla sem þeir óskuðu eftir sérstaklega. Fjölgað var um 4,5 stöðugildi á haustdögum til að bregðast við aukinni eftirspurn í leikskólana. Þannig var hægt að innrita rúmlega 50% barna sem fædd eru á fyrstu mánuðum ársins 2009. Árið 2009 voru 88,5% starfsmanna í leikskólum með fagmenntun. Þar af voru 78,5% með leikskólakennaramenntun. Árið 2010 stefnir í að fagmenntun starfsmanna nái 90%.

Á fundi skólanefndar var jafnframt lagt fram til kynningar yfirlit yfir stöðuna í rekstri leikskóla Akureyrarbæjar fyrstu 7 mánuði ársins. Þar kemur fram að kostnaður umfram áætlun er um 1% sem skýrist fyrst og fremst af kostnaði við dagvistun barna í heimahúsum og því að dreifiregla áætlaðra útgjalda stemmir ekki að fullu við rauntölur rekstrarkostnaðar í Hlíðarbóli. Annars sýnir yfirlitið að reksturinn er í járnum og þarf að beita miklu aðhaldi áfram svo áætlun standist.
                

Nýjast